Páskaferð til Vietnam dagana 24. mars til 12. apríl 2024.

Fyrir Covid fórum við góða ferð til Vietnam og Cambodíu. Í lok ferðar var ákveðið að fara fljótlega aftur en heimsækja bara annað landið í einu. Þessi lönd til samans eru 5 sinnum stærri en Ísland og  var ferðin því mikill "sprettur" sem gaf takmarkað tækifæri til að kynnast þessum löndum og ólíkum þjóðum. Þetta var svona svipað og að ætla að kynnast Íslandi í einni helgarferð. Myndir úr þeirri ferð má sjá hér:     Myndir

Um síðustu páska fórum við til Vietnam og var það afskaplega vel heppnuð ferð og höfum við því ákveðið að fara aftur um næstu páska í mjög svipaða ferð.

Þessi 20 daga ævintýraferð verður ein af páskaferðunum okkar 2024, en brottför er frá Keflavík 24. mars og heimkoma 12. apríl 2024. Vietnam er einstaklega heillandi land en ætlunin er í þessari ferð að kynnast margbreytileika landsins. Vietnam "endana á milli" er rúmir 3.000 km og því margt að sjá og fjölbreytileikinn mikill, ekki bara í veðri og gróðri heldur einnig menningu, matarvengjum, mannlífi ofl ofl. Við munum ferðast frá höfuðborginni Hanoi í norðri og suður á Mekong Delta svæðið en í ferðinni munum við gista í  Hanoi - Halong Bay - Hoi An - Hue- Ho Chi Minh - Can To - Ho Chi Minh.  Margir vilja meina að ef "horft er á veðrið" þá sé þetta besti tími ársins til að heimsækja Vietnam. Í apríl er meðalhitinn í norður Vietnam 24 gr/c, Hoi An 28 gr/c og í suður Vietnam 31 gr/c.

Þjóðin á sér glæsta sögu en á sama tíma hefur hún farið í gegn um miklar hremmingar sem eðlilega hefur mótað hana.  Vietnamar hafa í gegn um aldirnar þurft að berjast fyrir tilveru sinni við nágranna sína Kínverja auk þess sem á síðust öld höfðu þeir betur gegn innrásaherjum Frakka og Bandaríkjamanna. Ákaflega stolt þjóð í fallegu landi.

Ferðin hefst í Hanoi, sem er höfuðborg landsins en fyrir utan það að skoða borgina og kynnast sögu hennar þá förum við út í sveit þar sem við heilsum upp á bændur. Frá Hanoi förum við til Halong Bay. Á Halong flóanum siglum við um í einstöku umhverfi sem einkennist af þúsundum kalksteinseyja en við gistum á flóanum í tvær nætur. Eftir siglinguna höldum við aftur til Hanoi og tökum flugið til Danang en þaðan ökum við til Hoi An. Við dveljum fjóra daga í Hoi An en þaðan verður haldið til Hue. Í Hue stoppum við í einn dag áður en við höldum til Ha Chi Minh borgar sem heimamenn kalla Saigon en hún er stærsta borg landsins.  Við dveljum einn dag í Saigon og heimsækjum m.a. Cu Chi göngin.  Frá Saigon höldum við síðan  "niður" á hið heillandi Mekong Delta svæði. Þar fórum við um borð í fljótabát, sigldum um svæðið og gistum eina nótt um borð.  Eftir rólegheitin á Mekong Delta skiptum við algerlega um gír og skellum okkur í skarkala Saigon og verðum þar síðasta daginn okkar í landinu áður en við leggjum af stað heim.  Þó svo flestir dagar séu með þéttskipaða dagskrá þá eru líka "frí"dagar inn á milli þar sem við getum slappað af eða skoðað og upplifað eitthvað sem ekki er á formlegri dagskrá.

Fararstjóri í þessari ferð verður Margeir Ingólfsson en hann hefur mikla reynslu af ferðum um Asíu.

Dagur 1: Keflavík – Stokkhólmur – Bangkok - Hanoi

Lagt af stað frá Keflavík kl 07:35 með Icelandair og lent í Stokkhólmi kl 11:45. Eftir rúmlega klukkutíma (1 klst og 15 mín)  stopp í Stokkhólmi er haldið áfram með Thai Airways til Bangkok og áætlað að lenda þar kl 5:45 að morgni.

Dagur 2: Hanoi (-/-/-)            

Frá Bangkok verður síðan haldið til Hanoi kl. 7:45 og áætluð lending í Hanoi kl. 9:35. Við komuna til Hanoi tekur enskumælandi fararstjóri á móti okkur og fylgir okkur á hótelið, en þangað er ca. 45 mín akstur. Það sem eftir er dags á eigin vegum.

Gisting, Aira Boutique hotel, Deluxe Balcony.  https://airaboutiquehanoi.com/

Dagur 3: Hanoi. Skoðunarferð um Hanoi (M/H/-)

Við leggjum af stað í skoðunnarferð um borgina kl 8:30. Við ökum fram hjá hinu sögufræga Ba Dinh torgi þar sem Ho Chi Minh lýsti yfir sjálfstæði Vietnam 1945. Bílstjórinn hleypir okkur út við Lenin Garðinn og fáum okkur gönguferð um nágrennið og kynnum okkur daglegt líf fólksins á svæðinu. Þar eins og víða í landinu má sjá fólk vinna við gamalt handverk en á sumum stöðum sem við komum til með að heimsækja er eins og tíminn hafi staðnað, jafnvel fyrir einhverjum öldum. Við heimsækjum hof bókmenntanna og kynnumst hversu mikilvæg saga lands og þjóðar er íbúunum.

Síðan munum við heimsækja "þjóðminjasafnið" en það er bæði safn og rannsóknarset um hin mörgu og mismunandi þjóðarbrot sem byggt hafa upp Vietnam.

Hádegisverður á "local" veitingastað. Eftir mat göngum við um gamla hluta Hanoi en bara að fylgjast með iðandi mannlífinu þar er upplifun. Enn og aftur er eins og við höfum stigið einhver skref aftur í tímann. Til að koma okkur aðeins út úr skarkalanum þá ætlum við að heimsækja Thuong Tra te hús sem er staðsett í gamalli byggingu en þar ætlum við að fræðast um tedrykkju heimamanna og bragða á teinu hjá þeim. Við ætlum síðan að fara í göngu meðfram Hoan Kiem vatninu eins og fjölmargir heimamenn munu gera á sama tíma. Við endum síðan daginn á brúðusýningu, "Water Puppe show" en þetta er gamalt Norður Vietnamskt listform sem þeir nota m.a. til þess að segja sínar "Íslendingasögur", þ.e. sögur þjóðar sinnar.

Gisting, Aira Boutique hotel, Deluxe Balcony

Dagur 4:  Hanoi – Ninh Binh - Hanoi (M/H/-)

Þennan morgunn leggjum við að stað frá hótelinu okkar kl 8:30 og við tekur 2,5 klst akstur um landbúnaðarhéruð Norður Vietnam til Ninh Binh svæðisins. Ninh Binh er af mörgum talið eitt fallegasta hérað landsins en það hefur m.a. upp á að bjóða einstaka náttúrufegurð ásamt einstökum hofum.  Einkennandi fyrir svæðið eru fallegir hrísgrjónaakrar og tignalegir kalksteins klettar en svæðið er oft kallað "hið þura Halong Bay".

Við ætlum að ferðast töluvert á reiðhjóli þennan dag en ef einhver treystir sér ekki til þess eða hefur ekki áhuga þá er hægt að fara með á bílnum. Við munum fyrst hjóla um Tho Ha þorpið ásamt nærliggjandi þorpum en þetta er góður ferðamáti þegar ætlunin er að upplifa lífið og tilveru heimamanna á hljóðlegan og notarlegan hátt. Það er mjög sérstök tilfinning að líða um á reiðhjóli milli hrísgrjóna akranna, og fylgjast með heimamönnum við þeirra daglegu störf. Við höldum síðan áfram til Dong Tam Hamlet þar sem við sjáum enn fjölbreyttari landbúnað og veiðar, svo sem krabba veiðar, fiskveiðar alls konar grænmetisrækt ofl.

Eftir hádegismat förum við í rúmlega klukkustunda siglingu um síki og skurði milli hrísgrjóna akra. Við göngum síðan upp að Galaxy hellinum en það eru einstakar dropasteins myndanir í lofti hellisins. Við skoðum einnig But Hien hellinn og dropasteinana sem þar er að finna.

Við höldum síðan til baka til Hanoi.

Gisting, Aira Boutique hotel, Deluxe Balcony

Víetnam Mars 2018

Dagur 5: Hanoi - Halong flóinn (M/H/K)

Hið dulmagnaða landslag í Halong Bay með þúsundum kalksteinseyja, er einstakt á heimsvísu og er í huga margra tákn fyrir landið og þeirrar dulúðar sem mörgum finnst hvíla yfir því. Þetta er eitt af þeim svæðum sem allir sem koma til Vietnam verða að heimsækja og besta leiðin til þess er að fara í siglingu um flóann og gista um borði í bát, en sólarlagið og sólarupprásin er einstök í Halong flóanum. Eftir morgunverð leggjum við af stað til Halong en ferðin þangað tekur þrjár og hálfa klst með 20 mín stoppi á leiðinni.

Við komum á bryggjuna í Halong borg um miðjan dag og „tékkum okkur inn” í bátinn sem við munum sigla með. Eftir að við leggjum frá bryggju og siglum í áttina að flóanum verður framreiddur hádegisverður. Það er ævintýraleg upplifun að sigla um í Halong flóanum milli þessara óteljandi kalksteinseyja og það er ekki tilviljun að þetta svæði er á Heimsminjaskrá UNESCO. Í lok dags verður varpað ankerum fyrir nóttina og kvöldverður framreiddur.

Gisting, Orchid Trendy Cruise, Deluxe Cabin.  http://orchidtrendycruises.com/

Dagur 6: Halong Bay (M/H/-)

Dagurinn hefst með Tai Chi æfingum á þilfarinu og að þeim loknum fáum við okkur morgunverð á meðan báturinn líður af stað í morgunhúminu. Við heimsækjum einn stærsta og fallegasta hellinn á svæðinu á ferð okkar um flóann. Seinni part dags munum við skella okkar á kayak (þeir sem það vilja) og upplifa kalksteinseyjarnar og þessa einstöku náttúrufegurð, frá nýju sjónarhorni. Eftir að við komum aftur í bátinn munum við njóta matargerðalistar heimamanna auk einstakra ávaxtaskreytinga. Hádegis – og kvöldmatur um borð í bátnum.
Gisting, Orchid Trendy Cruise, Deluxe Cabin

Dagur 7: Halong Bay - Noi Bai Airport - Danang - Hoi An (Brunch/-/-)

Eftir morgunverð léttir skipið ankerum og fer að dóla sér til lands í Halong. Frá Halong er haldið til baka til Hanoi nánar tiltekið á flugvöllinn og farið í stutt flug til Danang. Þegar komið er þangað er ekið til Hoi An en aksturin þangað tekur 40 mín. Í Hoi An búa ca 120 þúsund manns en borgin var ein aðal verslunarborg Asíu á 17. og 18 öld. Byggingar og skipulag  gamla hluta bæjarins er skemmtileg blanda af erlendum áhrifum og hefðum heimamanna. Við munum kynnast því að byggingarnar og lifnaðarhættir íbúanna hafa ótrúlega lítið breytst síðustu aldirnar. Þarna er því margt að sjá og upplifa.

Gisting, Vinh Hung Riverside, Superior Garden View.  http://www.vinhhungresort.com/

Dagur 8: Hoi An (M/H/-)

Þennan morgunn förum við í gönguferð um þessa heilland borg sem segja má að sé með tvö "andlit", þ.e. gamli bærinn með mjóar verslunar götur, þröng sund og gamaldags byggingar annars vegar og hins vegar strandsvæðið með nútímalegum háhýsum. Hoi An leggur mikla áherslu á að viðhalda minningunni um hinn mikla verslunarstað í austrinu og er það m.a. gert með handverks- og listaverslunum í anda hins liðna. Þrátt fyrir styrjaldir og aðrar hörmungar  virðist fátt hafa breytst í miðbænum síðustu aldirnar. Í miðbænum getum við t.d. heimsótt aldargamalt kaupmannshús, 400 ára gamla Japanska brú sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar, litskrúðuga markaði ofl. Eftir gönguferð um gamla miðbæinn förum við í stutta ökuferð, ca 15 mín til Duy Hai fiskiþorpsins. Þar er litið við á fiskimarkaði og heimsækjum fjölskyldu fyrirtæki sem framleiðir fiskisósu en fiskisósur eru mikið notaðar við matargerð í Asíu. Þar fræðumst við m.a. um Vietnamska matargerð og þau krydd sem heimamenn nota við sína matargerð. Við förum síðan í stutta siglingu á "The mother river" eins og heimamenn kalla ána, þar sem við kynnumst lífinu á svæðinu og siglum m.a. fram hjá rækju- og andabúgarði. Síðasta hluta leiðarinnar aftur til Hoi An ferðumst við á reiðhjóli en það er besta aðferðin til þess að ferðast um þorp og sveitir og um leið fræðast um lifnaðarhætti heimamanna. Ef reiðhjól hentar ekki einhverjum þá er hægt að taka bílinn til baka.

Gisting Vinh Hung Riverside, Superior Garden View

Dagur 9: Hoi An (M/-/-)

Dagurinn á eigin vegum. Fyrir utan það að slappa af og gera sem minnst þá eru örugglega einhverjir sem eru með ákveðnar skoðanir á því hvað þeir vilja sjá og upplifa á svæðinu en hér er þá tækifærið.

Gisting, Vinh Hung Riverside, Superior Garden View

Dagar 10 - 11: Hoi An (M/-/-)

Dagarnir á eigin vegum. Hvernig væri t.d. að skreppa á ströndina, rölta um í gamla bænum eða bara slappa af í sundlaugargarðinum? Við heilluðumst af Hoi An í síðustu ferð og bættum því við degi hér

Gisting, Vinh Hung Riverside, Superior Garden View

Dagur 12: Hoi An - Hue (M/H/-)

Eftir morgunverð leggjum við af stað frá Hoi An til Hue en akstur þangað tekur tæpa þrjá klukkutíma. Hue var höfuðborg landsins frá 1802 til 1945 og er þar margt sem minnir á lífið í gömlu höfuðborginni auk þess sem þar er m.a. að finna grafhýsi síðasta keisarans. Minningu keisarans og fjölskyldu hans er haldið á lofti en við fáum innsýn lifnaðarhætti aðalsins áður fyrr. Stríð og aðrar hörmungar hafa mótað sögu þjóðarinnar í gegn um tíðina og má m.a. sjá það í Hue en borgin varð fyrir miklum skemmdum í stríðunum við Frakka og Bandaríkjamenn. Mikill varnarmúr umlukti borgina forðum til þess að borgarbúar gætu varist árásum og munum við fræðast um sögu borgarinnar en segja má að hvar sem við komum í Vietnam þá sjást ummerki þess að þjóðin hefur í gegn um aldirnar þurft að berjast fyrir tilveru sinni og sjálfstæði. Hue, falleg borg og heillandi.

Gisting, EMM Hue Hotel, Deluxe Room.    https://emmhotels.com/en/hotels/emm-hotel-hue

Dagur 13: Hue (M/H/-)

Eftir morgunverð, nánar tiltekið kl 8:30 leggjum við af stað í skoðunarferð um gamla bæinn. Við skoðum borgarmúrana sem Nguyen keisara ættin byggði um borgina en hann réði ríkjum á svæðinu frá 1802 til 1945. Það verður síðan hjólað með okkur í "cyclo" í gegn um gamla bæinn en þar heimsækjum við m.a. Tran Dinh Son safnið sem er safn muna sem keisarar og konungar fyrri tíma notuðu. Við kynnumst því hvernig afkomendur konunganna halda í hefðir og venjur forfeðra sinna. Við heimsækjum síðan Thien Mu hofið sem stendur við "Perfume River" en hofið var byggt 1601 og er miðja þess  21 meters hár turn sem er tákn hinna 7 "stiga" endurholdgunar Buddah. Við hofið stendur Austin bifreið sem er ein af táknmyndum Vietnam stríðsins (sem heimamenn kalla Ameríku stríðið) en þessari bifreið ók munkur árið 1963 niður til Saigon þar sem hann kveikti í sér til að mótmæla stríðinu og ríkisstjórn Suður Vietnam.  Ljósmynd sem tekin var af brennandi munknum er ein þekktasta ljósmynd frá stríðinu.

Hádegisverður á local veitingastað þar sem við kynnumst matargerð svæðisins. Eftir matinn heimsækjum við grafhýsi fyrrum keisara svæðisins en þetta er einstaklega fallegur garður sem hannaður er út frá hugmyndafræði Confuciusar þar sem lagt er upp úr friðsæld, kyrrð og allt sé í fullkomnu "symmetrísku" jafnvægi. Grafhýsi "Khai Dinh´s" er einstakt og ólíkt öllum öðrum grafhýsum í Hue en það er í Vietnömskum stíl undir Evrópskum áhrifum.

Gisting, EMM Hue Hotel, Deluxe Room

Dagur 14: Hue - Ho Chi Minh City (M/H/-)

Eftir morgunverð verður ekið út á Hue flugvöllinn og flogið niður til Ho Chi Minh borgar sem heimamenn kalla Saigon.  Þar tekur leiðsögumaður á móti okkur og fer með okkur í skoðunarferð um borgina.  Fyrsta stop er í “Sameiningar Höllinni” en þessi merkilega bygging sem áður var kölluð forseta höllin á sér merkilega sögu. Við munum m.a. fá að heyra hvað gerðist 30. apríl 1975 þegar Saigon fell í hendur Norður Vietnama.  Á ferð okkar um borgina munum við kynnast bæði mannlifi og byggingarlist en við sjáum m.a. Óperu húsið, Ráðhús borgarinnar og Gamla Pósthúsið sem á sér merka sögu. Við fræðumst um "dýrðardaga" Frönsku Indókína og hvernig þetta tímabil hefur mótað menningu landsins enn þann dag í dag.  Við heimsækjum stríðsminjasafnið þar sem við kynnumst hernaðarsögu landsins. Sjáum sýningu með hlutum frá Frakklands- og Ameríku stríðinu, fræðumst um baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði og heyrum sögur af andspyrnuhreyfingu Vietnömsku þjóðarinnar.  Í lok ferðar stígum við út úr hefðbundnum túrista rúnti, heilsum upp á heimamenn á Víetnömsku kaffihúsi og fáum okkur kaffi með þeim. Eftir heimsóknina á kaffihúsið förum við síðan upp á hótel.

Gisting, Northern Charm, Deluxe.  https://northerncharmhotel.com.vn/en/

Dagur 15: Ho Chi Minh (M/-/-)

Brottför frá hótelinu kl 07:30 og ökum út úr borginni þar sem sveitin tekur við með hrísgrjónaökrum, þorpum og öllu því sem Suður Vietnömsk sveit hefur upp á að bjóða.  Við ætlum að skoða og fræðast um Cu Chi göngin en það er ótrúlegt net gangna sem Vietnamska andspyrnuhreifingin (Viet Cong) gróf og notaði bæði í stríðinu við Frakka og síðan Bandaríkjamenn. Við fáum fræðslu um það hvernig göngin voru byggð, hvernig þau voru notuð og hvernig var að “búa” í  göngunum.  Síðan fáum síðan tækifæri til þess að fara ofan í göngin og upplifa hvernig var að vera þar. Í þessari heimsókn fáum við  sögur úr stríðinu og hvernig heimamenn upplifðu það.  Á Vesturlöndum fengum við reglulega fréttir af “Vietnamstríðinu”, sem Vietnamar kalla “Amríkustríðið”, en þær fréttir eru verulega frábrugðnar upplifun heimamanna á þessum tíma. Komum til baka á hótelið um miðjan dag og það sem eftir er dags á eigin vegum.

Gisting, Northern Charm, Deluxe

Dagur 16: Ho Chi Minh - Can To (Mekong Delta (M/H/K)

Kl 8 um morguninn leggjum við af stað frá hótelinu til Cai Be en þangað verðum við komn um hádegi. Í Cai Be förum við um borð í fljótabátinn Bassac, fáum "welcome drink", kynnumst skipinu og áhöfninni áður en við fáum klefana okkar. Síðan verður siglt af stað á Tien ánni, áleiðis til Cho Lach. Hádegisverður um borð og síðan afslöpun úti á dekki. Sigling um þetta svæði er mikið ávintýri en þarna er mikil umferð af allskonar fljótabátum en það er í raun ótrúlegt að sumir bátarnir skulu haldast á floti. Það er auðvelt að gleyma sér við að fylgjast með umferðinn, byggðinni og mannlífinu bæði á bökkunum og um borð í bátunum sem jafnframt eru heimili fólks. Við siglum um ár og skurði sem tengja saman árnar en þegar við siglum um Mang Thit ána munum við heimsækja þorp á árbakkanum, kynnumst því hvað fólkið er að rækta, hvernig fólkið býr og upplifum gestrisni heimamanna. Förum síðan aftur um borð í Bassac og njótum sólsetursins. Áhöfnin ber fram kvöldverðinn á meðan við "dólum" okkur eftir ánni. Við vörpun síðan ankerum rétt við Tra On yfir nóttina.

Gisting, Bassac Cruise, Deluxe

Dagur 17: Mekong Delta - Ho Chi Minh (M/-/K)

Eftir morgunverð siglum við til lands í Can To og höldum til baka til Ho Chi Minh.

Eftir að við komum á hótelið okkar verður afslöppun til kl 18 en þá hittum við mótorhjóla (vespu) fararstjórann okkar en þetta kvöld verður okkur ekið um á mótorhjólum (vespum) en það er mun auðveldari ferðamáti í “gamla bænum” en á bíl. Í fyrsta stoppi gefst okkur tækifæri á því að prófa Suður Vietnamska pönnukökur og vorrúllur en matreiðsla og  matarvenjur eru ólíkar eftir landshlutum.  Við ökum síðan m.a. það sem kallað er “svæði 4”og stoppum þar á vinsælum sjávarréttar matarmarkaði.  Á götunum eru allskonar matarvagnar í löngum röðum kílómetrum saman og að sjálfsögðu verðum við að smakka einhverja af þessum gómsætu réttum. Eftir að hafa borðað nægju okkar ökum við að Bach Dang bryggjunni og förum í stutta göngu í rökkrinu.

Síðan höldum við áfram  og stoppum á kaffihúsi með lifandi tónlist. Notalegt að taka því rólega og upplifa þetta rólega og afslappaða andrúmsloft sem er á þessum stöðum. Við endum kvöldið með því að fara á stað sem er með frábæru útsýni yfir borgina. Þar er gott að setjast niður fá sér drykk hlusta á tónlist og fylgjast með umferðinni flæða allt í kring um okkur. Kæmi mér ekki á óvart að þetta kvöld yrði ógleymanlegt fyrir einhvern.

Gisting, Northern Charm, Deluxe

Dagur 18: Ho Chi Minh (M/-/-)

Dagurinn á eigin vegum en  þegar hér er komið verðum við  örugglega komin með einhverjar hugmyndir um það hvað við viljum gera áður en við förum heim.

Gisting, Northern Charm, Deluxe

Dagur 19: Ho Chi Minh - Ísland (M/-/-)

Lagt af stað heim. Seinni part dags verður okkur ekið út á flugvöll en farið verður í loftið kl 20:10 og flogið til Bangkok með Thai Airways. Áætluð lending þar er kl 21:35.

Dagur 20: Komið til Keflavíkur

Lagt af stað frá Bangkok kl 01:20 og lent í Kaupmannahöfn kl 07:40. Kl 8:30 verður haldið áfram til Keflavíkur og er áætluð lending þar kl 09:45.

Frekari upplýsingar og bókanir eru í síma 8938808 og/eða mi@ferdin.is

M=morgunverður, H=hádegisverður, K=kvöldverður

Verð kr 780.000- pr mann í tveggja manna herbergi. Í eins manns herbergi kr 895.000-

Takmarkað sætaframboð.

Verð miðast við gengi 30.09.2023.

Innifalið í verði:

* Millilandaflug, Keflavík – Hanoi
* Millilandaflug, Ho Chi Minh – Keflavík
* Innanlandaflug, Hanoi - Danang
* Innanlandsflug, Hue – Ho Chi Minh
* Akstur til og frá flugvöllum.
* Gisting í  3 nætur með morgunverði á Aira Boutique Hotel í Hanoi.
* Gisting í  4 nætur með morgunverði Northern Charm í Ho Chi Minh.
* Gisting í  5 nætur með morgunverði áVinh Hung Riverside í Hoi An.
* Gisting í  2 nætur með morgunverði á EMM Hue Hotel í Hue
* Sigling og gisting í 2 nætur ásamt morgunverði með Orchid Trendy Cruise á Halong Bay, sjá ferðalýsingu.
* Sigling og gisting í 1 nótt ásamt morgunverði með Bassac Cruise á Mekong svæðinu, sjá ferðalýsingu.
* Fullt fæði í 3 daga.
* Hálft fæði 7 daga.
* Skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu.
* Aðgangseyrir að þeim stöðum sem heimsóttir eru samkvæmt ferðalýsingu.
* Íslensk fararstjórn.
* Enskumælandi fararstjórn.

Ekki innifalið í verði:

* Forfalla- ferða- og slysatryggingar.
* Drykkir.
* Ferðir sem eru í boði á „frídögum“.
* Þjórfé fyrir leiðsögumenn og bílstjóra.
* Vegabréfsáritanir til Vietnam.
* Öll persónuleg útgjöld sem ekki er getið um í ferðalýsingu.

Margeir Ingólfsson

mi@ferdin.is / 893 8808

Ath.  Ferðaskrifstofan áskilur sér rétt til að breyta áætlun ferðar ef ófyrirsjáanlegar aðstæður gefa tilefni til.