Leyndardómar Thailands

Vinsælasta hópferðin okkar til Thailands. Við stefnum á þessa ferð með íslenskri fararstjórn í nóvember 2023.

Í þessari 18 daga ferð, munum við ferðast og forvitnast um „Leyndardóma Thailands“, en þetta hefur þetta verið vinsælasta Thailandsferðin okkar undanfarin ár. Hér neðst á síðunni er hægt að lesa nokkra umsagnir um ferðina.  Þema ferðarinnar er sem fyrr NÁTTÚRA – SAGA – UPPLIFUN – AFSLÖPPUN, að viðbættri smá verslun í lokin. Eftir að komið er til Thailands verður dvalið í tvo daga í Bangkok þar sem áhugavert er að upplifa söguna, menninguna og mannlífið. Verður flogið til borgarinnar Chiang Mai og dvalið þar í þrjá daga. Þá verður ekið norður til borgarinnar Chiang Rai, en þaðan verður m.a. farið í heimsókn í Gullna Þríhyrninginn á mörkum Thailands, Burma og Laos og skroppið yfir til Laos. Þessi hluti ferðarinnar einkennist af mikilli sögu og náttúruupplifun auk þess sem við munum kynna okkar landbúnað á svæðinu og heilsa upp á bændur. Við kveðjum síðan Gullna Þríhyrninginn og tökum flugið aftur til Bangkok og förum þaðan út í paradísareyjunna Koh Chang sem er rétt við landmærin að Kambódíu, en eyjan er frábær staður til afslöppunar. Ferðin endar síðan í Bangkok þar sem við dveljum í aðal verslunarhverfinu og „fyllum“ töskurnar fyrir heimferðina. Sjá nánari ferðaáætlun hér að neðan en myndir úr fyrri ferðum er að finna á Facebook síðunni okkar „Ferðin“ undir myndasöfn.

 

Dagur 1: Keflavík - Kaupmannahöfn – Bangkok.
Dæmi um ferðatilhögun: Flogið með Icelandair til Kaupmannahafnar og þaðan áfram með Thai Airways til Bangkok.

Dagur 2: Komið til Bangkok.
Við munum lenda á Suvarnabhumi alþjóðarflugvellinum við Bangkok snemma morguns og þaðan farið á hótel í Kínahverfinu í borginni. Akstur frá flugvelli á hótel ca. 60 mín. Það bíður okkar morgunverður á hótelinu og herbergin verða tilbúin þegar við komum en það verður afslöppun fram undir hádegi. Kínahverfið er spennandi og áhugaverður heimur út af fyrir sig en við munum ganga um hverfið á leið okkar í hádegismat, sem verður á Suptra River House Restaurant. Eftir hádegisverð verður farið í siglingu um síki borgarinnar. Bangkok byggðist upp á bökkum Chao Phraya árinnar og á nítjándu öldinni voru í borginni mikið af síkjum og skurðum út frá ánni sem hægt var að sigla eftir. Þá voru bátar aðal farartæki borgarinnar, enda borgin oft kölluð „Feneyjar austursins“  Nú er búið að fylla upp í flest þessara síkja en ekki öll og munum við fara í siglingu um þau og kynnast mannlífinu og byggðinni á bökkum þeirra. Við siglum m.a. fram hjá hofinu „Wat Arun“ en það er einnig þekkt sem „Temple of Dawn“. Hofið sem er a.m.k. frá 17. öld, stendur á bökkum Chao Phraya árinnar og er eitt af kennileitum borgarinnar. Hofið er m.a. þekkt fyrir 79 metra háan turn sem þakinn er „mósaík“ og glitrar því sérkennilega í sólinni. Hádegisverður á „local“ veitingastað.
Gisting: Grand China Hotel. (M/H)

Dagur 3: Bangkok.
Þennan dag verður farið í skoðunarferð um Bangkok. Ferðin hefst með heimsókn í Grand Palace og Wat Phra Keo. Konungur Thailands bjó forðum í Grand Palace og eru þar margar merkar byggingar auk þess sem við kynnumst þar vel sögu landsins og byggingarlist. Merkasta byggingin á svæðinu er Wat Phra Keo en þar innandyra er „Emerald Buddha“ sem er það buddalíknesi sem mestur átrúnaður er bundin við á Thailandi. Á Grand Palace svæðinu er margt að sjá og mynda, en óheimilt er að taka myndir af „Emerald Buddaha“ líkneskinu sjálfu. Þá er komið að hofinu „Wat Chetuporn“ sem er betur þekkt sem Wat Po en þar er m.a. 45 metra langt Buddha líkneski. Wat Po er þekkt fyrir að þar var fyrsta miðstöð alþýðumenntunar í landinu og er hofið stundum kallað fyrsti háskólinn auk þess sem þetta er talið vera „heimili“ Thailenska nuddsins. Hádegisverður verður snæddur á „local“ veitingastað í ferðinni. „Frí“ frá skipulagri dagskrá er síðan það sem eftir er dagsins.
Gisting: Grand China Hotel (M/H)

Dagur 4: Bangkok – Chiang Mai
Eftir morgunverð verður ekið út á flugvöll og flogið norður til borgarinnar Chiang Mai. Frá flugvellinum í Chiang Mai verður ekið að hótelinu okkar en eftir innritun verður dagurinn frjáls. Um kvöldið förum við síðan á næturmarkaðinn en þar er margt áhugavert að sjá auk þess sem gott er að fá sér kvöldverð á markaðinum.
Gisting: Chiang Mai Plaza Hotel. (M)

Dagur 5: Chiang Mai
Norður hluti Thailands þar sem Chiang Mai er staðsett, var fyrr á öldum lokað frá öðrum hlutum landsins árum saman og er því saga svæðisins og menning um margt ólík öðrum hlutum Thailands. Á árunum 1281-1556 var borgin höfuðborg Lanna ríkisins, sem náði frá mið-Thailandi í suðri til Laos í norðri. Lanna mætti þýða sem „milljónir af hrísökrum“ sem segir okkur að þetta hafi verið auðugt ríki og eins hver verðmætin voru á þessum tíma. Chiang Mai er ein áhugaverðasta borg Thailands og er margt að sjá og skoða, bæði í borginni sjálfri og utan hennar. Í borginni eru rúmlega 300 hof og er Doi Suthep „helgast“ þeirra. Hofið stendur á hæð sem er í rúmlega 1.000 metra hæð og er útsýnið úr hofinu yfir Chiang Mai og nágrenni þess, hreint út sagt stórkostlegt. Eftir morgunverð verður Doi Suthep hofið heimsótt og síðan haldið til bæjarins Sangkamphang eftir að hafa snætt hádegisverð á „local“ veitingastað. Bærinn Sangkamphang er þekktur fyrir glæsilegt handverk og forn vinnubrögð. Litið verður við hjá handverksfólki við vinnu sína en þetta eru m.a. silfursmiðir, vefarar, tréskurðarmeistarar og einnig verður skoðað hvernig hinar litríku sólhlífar eru framleiddar. Síðan er farið aftur til Chiang Mai.
Gisting: Chiang Mai Plaza. (M/H)

Dagur 6: Chiang Mai
Dagurinn á eigin vegum. Gott að slappa af eftir ferðalag síðustu daga og slaka á í sólinni. Fyrir þau sem vilja sjá meira af borginni þá verður farið gangandi í skoðunarferð um miðjan daginn.
Gisting: Chiang Mai Plaza. (M)

 

Dagur 7: Chiang Mai – Chiang Rai
Eftir morgunverð verður lagt af stað norður til borgarinnar Chiang Rai. Á leiðinni þangað verður komið við á fílabúgarði, en þar kynnist hópurinn þessum stóru og gáfuðu skepnum. Á staðnum er boðið upp á fílasýningu auk þess sem hægt er að skoða frumskóginn á fílabaki. Fílareiðin er ekki innifalið í verði ferðarinnar en einnig er hægt að skella sér á fílabak á eyjunni Koh Chang þegar þangað verður komið. Hádegisverður á „local“ veitingastað, en þar er m.a. hægt að skoða einstaklega fallegar orkídeur.
Gisting: ??? (M/H)

Dagur 8: Chiang Rai
Eftir morgunverð verður farið niður að Maekok fljótinu og þar um borð í fljótabát (long tail) og siglt upp eftir fljótinu. Náttúrufegurðin er ólýsanleg á þessum slóðum og siglingaleiðin einstaklega falleg. Siglt verður meðfram mörgum smáþorpum sem staðsett eru við fljótið en á þessum slóðum búa margir minnihlutahópar. Þjóðflokkarnir hafa flúið til landsins frá nágrannalöndunum, s.s. Burma, Laos, Tíbet  og Kína. Helst þjóðarbrotin á svæðinu eru Akha-, Hmong-, Lisu-, Karen-, Lahu- og Mienfólk. Stefnt er á að fara í heimsókn í eitt af þorpunum. Eftir siglinguna heimsækjum við "Bláa hofið" og endum á "The Big Buddah" eins og heimamenn kalla staðinn. Það sem eftir er dags á eigin vegum.
Gisting: ??? (M/H)

Dagur 9: Chiang Rai

Eftir morgunverð er lagt af stað í skoðunarferð um Chiang Rai og nágrenni. Farið verður í Gullna Þríhyrninginn, en það er fljótasvæði við landamæri Thailands, Laos og Myanmar (Burma) sem þekkt var fyrir ópíum sölu og smygl hér áður fyrr. Á leiðinni þangað munum við heimsækja „Hvíta Hofið“ en það hof er einstakt í Thailandi, hvað varðar sögu og útlit. Síðan verður komið við í þorpum hjá ættbálkum sem áður fyrr höfðu sitt lifibrauð af ópíumrækt og sölu, m.a. hjá „Long neck“ fólkinu. Farið verður í siglingu á Mekong fljótinu með stuttri viðkomu í Laos. Áhugaverður dagur í fallegu umhverfi. Hádegisverður í Imperial Golden Triangle. Eftir að komið er aftur til Chiang Rai er kvöldverður á hótelinu.
Gisting: Dusit Island Resort Chiang Rai. (M/H/K)

Dagur 10: Chiang Rai – Bangkok - Koh Chang
Þessi dagur er mikill ferðadagur en við ferðumst frá Chiang Rai sem er nyrst í landinu, suður til eyjunnar Koh Chang sem er rétt við landamærin að Cambodiu. Eftir morgunverð er ekið út á flugvöllinn í Chiang Rai og flogið til Bangkok. Frá flugvellinum í Bangkok verður flogið til bæjarins Trat en frá Trat er ferjan tekin til eyjunnar Koh Chang. Komið til Koh Chang síðla dags og gist á Chai Chet Resort. Næstu daga verður dvalið í eyjunni en þessir dagar eru hugsaðir til afslöppunar eftir gott ferðalag um landið. Í eyjunni er þó ýmislegt í boði þegar að það kemur að afþreyingu og mun fararstjóri fara yfir það á staðnum og skipuleggja dagana í samráði við hópinn.
Gisting: Chai Chet Resort, Koh Chang.  (M)

Dagur 11 – 15:  Koh Chang
Ekki er ósennilegt að einhverjir vilji taka því rólega á Koh Chang til að byrja með, því eyjan er kjörinn staður til afslöppunar. Eyjan Koh Chang  er hluti af samnefndum þjóðgarði og því lögð áhersla á rólegheit á staðnum. Til dæmis er ekki leyfilegt að vera með Jet ski eða önnur „hávaðatæki“ á svæðinu. Fyrir þá sem vilja sjá meira af eyjunni þá er t.d. hægt að fá lánaðan kajak á hótelinu og dóla á kyrrlátum öldunum meðfram ströndinni. Einnig er hægt að fara í göngu um eyjuna með leiðsögn. Koh Chang er fjalllend og þakin frumskógi að mestu en ekki er ráðlegt að fara inn í skóginn án leiðsagnar. Fyrir þau sem eiga eftir að fara á fílabak í ferðinni, eða vilja skella sér aftur, þá er hægt að fara skemmtilega ferð inn í frumskóginn sem endar með því að fá sér sundsprett með fílunum.
Mælt er með því að allir prófi að fara í „snorkl-ferð“ til nærliggjandi eyja. Þetta eru dagsferðir þar sem stoppað á nokkrum stöðum til að „snorkla“ og njóta náttúrunnar. Við munum dvelja á Chai Chet hótelinu sem er við Klong Prao ströndina sem er ein fallegasta strönd eyjunnar. Stærsti byggðakjarninn er við White Sand ströndina en þangað er ekki nema 10 akstur með "leigubíl" og kostar ferðin ekki nema ca 200- kr pr mann.
Gisting: Chai Chet Resort, Koh Chang.  (M)

Dagur 16: Koh Chang – Bangkok
Eftir morgunverð verður farið í ferjuna sem flytur hópinn yfir til meginlandsins, ca. 30 mín sigling. Frá ferjunni verður stefnan tekin á Bangkok, ca. 5 klst akstur.
Gisting: Centara Watergate Pavilion Hotel (M)

[lightbox_image size="full-half" image_path="https://www.ferdin.is/wp-content/uploads/Buddhist-Monks-umbrella-IST.jpg" lightbox_content="https://youtu.be/4wgwudnKIPc" group="Video" description="Ferðin.is kynnir Leyndardóma Thailands"]

Dagur 17: Bangkok
Þessi dagur er hugsaður sem verslunardagur í verslunarparadísinni Bangkok, fyrir þá sem hafa áhuga á því. Annars er hægt að skoða sig um og upplifa borgina með öllum sínum sérkennum. Gist verður í aðal verslunarhverfi borgarinnar, t.d. rétt við MBK  og Central World verslunarmiðstöðvarnar. Lagt af stað frá hótelinu út á flugvöll um kvöldmat.

Dagur 18: Bangkok - Kaupmannahöfn -  Keflavík
Flogið frá Bangkok til Kaupmannahafnar og þaðan til Keflavíkur.

Verð liggur ekki fyrir enda óljóst hvenær hægt verður að fara í þessa ferð.

Innifalið í verði í síðustu ferð:
* Akstur frá flugvelli í Bangkok á hótel.
* Gisting í 2 nætur með morgunverði á Grand China Princess Hotel Bangkok.
* Gisting  með morgunverði í hringferðinni norður í land, sjá ferðalýsingu.
* Flug frá Keflavík til Bangkok.
* Flug frá Chiang Rai til Bangkok.
* Gisting í 6 nætur með morgunverði á Chai Chet Resort, Koh Chang.
* Gisting í 1 nótt með morgunverði á Centara Watergate Pavilion Hotel Bangkok .
* Skoðunarferð um Bangkok, Grand Palace ofl.
* Enskumælandi thailenskur leiðsögumaður
* Fullt fæði í 1 daga.
* Hálft fæði 5 daga.
* Heimsókn í hið einstaka Doi Suthep hof við Chiang Mai.
* Hálfsdagsferð í handverksbæinn Sangkamphang við Chiang Mai.
* Heimsókn í fílabúgarð, boðið er upp á skemmtilega sýningu þar sem fílarnir leika listir sínar.
* Heimsóknir í nokkur fjallaþorp,
* Heimsækjum m.a. „Long neck“, Akha, Yao (lu mien) og Lahu þjóðflokkana.
* Sigling á Maekok River frá Thaton til Chiang Rai.
* Dagsferð í „Gullna Þríhyrninginn“.
* Sigling á Mekong ánni með stoppi í Laos.
* Akstur og sigling frá Bangkok til Koh Chang.
* Akstur og sigling frá Koh Chang til Bangkok.
* Akstur frá hóteli í Bangkok út á flugvöll.
* Ásamt öðru sem fram kemur í ferðalýsingu.
* Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið í verði í síðustu ferð:
* Forfalla- ferða- og slysatryggingar.
* Drykkir.
* Ferðir sem eru í boði á „frídögum“.
* Þjórfé fyrir leiðsögumenn og bílstjóra.

Umsagnir ferðafélaga út síðustu ferð um "Leyndardóma Thailands"

Hildur Ósk Sigurðardóttir.

Ég er að fletta í gegnum myndirnar úr Tælandsferðinni frábæru og ákvað að koma með smá sýnishorn af skemmtilegu andstæðum úr ferðinni. Upplifunin af bæði landi og þjóð var hreint alveg frábær, innfæddir koma ferðamanninum fyrir sjónir sem brosmilt, jákvætt og og einstaklega kurteist fólk. Náttúran er dásamleg, mikil gróska og fjölbreytni í plöntum það er því óneitanlega mikil andstæða þegar til borgarinnar er komið, umferðin er..ja, öðruvísi en maður er vanur  😉 Ein mynd af fararstjórum um okkar fær að fljóta með. Fararstjórnin fær fullt hús stiga, Margeir klikkar ekki á því og hélt vel utan um hópinn allan tímann. Ég mæli með því að kíkja á ferðin.is fyrir þá sem hyggja á ferðalög á þessar slóðir. Enn og aftur bestu þakkir fyrir okkur.

Magnea Jóhannsdóttir og Sölvi Sveinsson

Í haust fórum við með ferdin.is í góðum hópi til Tælands. Skemmst frá að segja var sú ferð einkar ánægjuleg. Allt skipulag var til fyrirmyndar, ferðin var blanda af upplifun, fróðleik, afslöppun og ánægju. Við fórum víða um landið, sáum menningarminjar og lifandi þjóðlíf. Þessir dagar voru ótrúlega fjölbreyttir. Fararstjórn var til fyrirmyndar, enginn kl. 11-12 hittingur, heldur var fararstjórinn alltaf til staðar. Í framhaldinu fórum við hjón ein til Víetnam, en ferdin.is hafði skipulagt tæplega þriggja vikna ferð þangað fyrir okkur hjón í samvinnu við þarlenda ferðaskrifstofu í samráði við okkur. Sú ferð var frábær og allt stóð eins og lagt var upp með. Það vakti athygli okkar að starfsmenn víetnömsku skrifstofunnar hringdu nokkrum sinnum í okkur til þess að fullvissa sig um að allt væri í góðu gengi. Fyrirmyndar þjónusta.

Esther Guðjónsdóttir

þá erum við komin heim frá Thailandi. Vorum í frábærum hóp með www.ferdin.is og með Margeir sem farastjóra sem hélt vel utan um allt, alla ferðina og fær 10 fyrir fararstjórn. Fólkið í Thailandi er mjög indælt fólk, alltaf brosandi og vill allt fyrir mann gera og sem gott dæmi um það er að síðasta daginn okkar þarna þá ætlaði ég að eyða restinni af gjaldeyrinum á markaðinum fyrir utan hótelið og kaupa lítinn lampa sem átti að kosta 100 bat en ég átti bara 63 bat og ætlaði að prútta honum niður í það (allir prútta þarna). Sýndi ég sölumanninum peninginn og sagði ég honum að þetta væri allt sem ég ætti og ég væri að fara úr landinu um kvöldið. Hann horfði á mig í smá stund og sagði.. þú mátt eiga lampann því þú þarft að kaupa þér vatn að drekka þangað til þú ferð... ég varð hálf orðlaus og reyndi að koma peningunum á hann en hann var alveg ákveðin í að ég þyrfti vatn sem var svo sem alveg rétt og eg fékk gefins lampa. Takk allir fyrir samveruna.

Sigga og Valli

Þessi ferð fór langt fram úr okkar væntingum. Frábærlega vel skipulögð, hópurinn smellpassaði saman sem að skiptir svo miklu máli, fararstjórnin  í öruggum höndum hjá Margeiri og innlendi fararstjórinn var ekki síðri. 18 dagar eru málið.

Allt sem að við sáum og skoðuðum og upplifðum er eitthvað sem að lifir í minningunni alltaf. Sé fyrir mér að fólk í kringum okkur  verði búið að fá nóg af tilvitninum sem að byrja á "þegar við vorum í Tælandi.... "

Get svo sannarlega mælt með þessari ferð