Í nóvember 2020 var ætlum að „bregða undir sig betri fætinum“ og heimsækja Vietnam og Cambodíu. Vegna covid-19 hafa þessar áætlanir breytst og verða nýjar dagsetningar kynntar síðar. Þetta eru stórkostleg lönd, mikil náttúrfegurð og þó svo löndin liggi saman þá er saga þeirra og menning um margt ólík.
Ferðin hefst í Hanoi, sem er höfuðborg landsins en þaðan förum við til Halong Bay. Þar siglum við um í einstöku umhverfi sem einkennist af þúsundum kalksteinseyja en gist verður á flóanum í tvær nætur. Frá Hanoi förum við til Ho Chi Minh, sem heimamenn kalla Saigon, upplifum borgina og einstaka sögu landsins. Við gistum eina nótt í Saigon en höldum síðan "niður" á hið heillandi Mekong Delta svæði. Þar förum við um borð í fljótabát, siglum um svæðið og gistum eina nótt um borð. Síðan skellum við okkur í land og gistum eina nótt á hóteli á fljótsbakkanum og kynnumst daglegu lífi íbúa á svæðinu. Eftir rólegheitin á Mekong Delta skiptum við algerlega um gír og skellum okkur í skarkala Saigon, gistum þar í þrjár nætur og skoðum okkur um. Frá Saigon verður flogið yfir til Siem Reap í Cambodíu. Í Siem Reap heimsækjum við meðal annars hið einstaka Angor Wat hof, hina fornu borg Angor Thom ásamt fleiri áhugaverðum stöðum. Einnig verður farið í siglingu á Tonlé Sap vatninu þar sem við kynnumst daglegu lífi fólks sem býr á vatninu. Síðustu dagana fyrir heimferð verður afslöppun í Siem Reap.
Fararstjóri í ferðinni verður Margeir Ingólfsson en hann hefur mikla reynslu af ferðum um Asíu.



Dagur 1: Keflavík – Kaupmannahöfn – Bangkok - Hanoi
Lagt af stað frá Keflavík kl 7:45 og lent í Kaupmannahöfn kl 11:45. Eftir tveggja tíma stopp í Kaupmannahöfn er haldið áfram til Bangkok og áætlað að lenda þar kl 6:20 að morgni.
Dagur 2: Hanoi (-/-/-)
Frá Bangkok verður síðan haldið til Hanoi kl. 7:45 og áætluð lending í Hanoi kl. 9:35. Við komuna til Hanoi tekur enskumælandi fararstjóri á móti okkur og fylgir okkur á hótelið, en þangað er ca. 45 mín akstur. Það sem eftir er dags á eigin vegum.
Gisting, Hótel Chalcedony, First Class, Deluxe City view
Dagur 3: Skoðunarferð um Van Giang þorpið, skoðunarferð um Hanoi (M/H/-)
Við yfirgefum ysinn og þysinn í höfuðborginni og setjum stefnuna á sveitarsæluna en þar ætlum við að vera fyrri hluta dagsins. Höldum yfir „Red River“ og sjáum stórhýsi borgarinnar fjarlægjast á sama tíma og þorpin og hrísgrjónaakrarnir taka við. Eftir 45 mín akstur komum við til þorpsins Van Giang. Við skellum okkur beint á morgunmarkaðinn og upplifum stemninguna þar en þá mun stórborgin virðast í órafjarlægð. Allt í kringum okkur eru endalausir hrísgrjónastallar með götusölum sem bjóða hrísgrjón, núðlusúpur, ferskt grænmeti, grillað kjöt og margt fleira. Í göngu okkur um þorpið komum við að hofi sem er tileinkað einum af fjórum „guðum“ Vietnama. Við göngum um friðsælan garð og að altarishúsinu þar sem reykelsi brenna eins og þau hafa gert í hundruðir ára. Við munum síðan staldra við hofið sjálft en þar sjáum við vel hina fornu vietnömsku byggingalist. Við göngum síðan um Van Giang að 150 ára gömlu heimili Mr. An sem var Bonsai safnari. Þetta fallega heimili byggir á „Feng shui” hugmyndafræðinni sem við fáum að fræðast um. Yfir bolla af grænu te kynnumst við gestgjöfunum sem munu fræða okkur um sögu þorpsins. Fjölskyldan mun síðan sýna okkur hvernig þau undirbúa vorrúllugerð og „chung” kökur sem er sérstakur norður-vietnamskur siður. Við snæðum síðan dæmigerðan norður-vietnamskan hádegisverð með fjölskyldunni. Eftir matinn kveðjum við gestgjafana og höldum til Hanoi, margsvísari um sveitarlífið í norður Vietnam.
Eftir að við komum til Hanoi heimsækjum við fyrst Hof Bókmenntanna. Árið 1076 var fyrsti háskólinn í Vietnam stofnaður í Quoc Tu Giam en hlutverk hans var að mennta hina konungbornu, „mandarina” og aðra sem tilheyrðu yfirstéttinni. Háskólinn var starfandi í 700 ár og í dag gefa byggingarnar og garðurinn góða innsýn í forna byggingalist og fortíðina. Frá háskólanum liggur leið okkar í safn tileinkað vietnömskum konum. Safnið, sem er staðsett nálægt Hoan Kiem vatninu, veitir gestum merkilega innsýn í líf vietnamskra kvenna og hið fjölbreytta og mikilvæga hlutverk sem þær gegna í samfélaginu. Við fræðumst m.a. um siði og venjur sem tengjast fæðingum, giftingum, móðurhlutverkinu, hlutverki konunnar við trúariðkanir ofl. Við endum daginn í því sem kallað er gamli hlutinn í borginni eða „36 streets“ . Það er mjög heillandi að ganga um þetta svæði, fara á Hang Be markaðinn og ganga meðfram Hoan Kiem vatninu. Þarna eru mjóar götur með mjög fjölbreyttu mannlífi og margt merkilegt að sjá og upplifa. Við munum örugglega taka margar myndir þennan daginn, eins og reyndar alla daga.
Gisting, Hótel Chalcedony, First Class, Deluxe City view
Dagur 4: Hanoi – Halong Bay (M/H/K)
Hið dulmagnaða landslag í Halong Bay með þúsundum kalksteinseyja, er einstakt á heimsvísu og er í huga margra tákn fyrir landið og þeirrar dulúðar sem mörgum finnst hvíla yfir því. Þetta er eitt af þeim svæðum sem allir sem koma til Vietnam verða að heimsækja og besta leiðin til þess er að fara í siglingu um flóann og gista um borði í bát, en sólarlagið og sólarupprásin er einstök í Halong flóanum. Eftir morgunverð leggjum við af stað til Halong en ferðin þangað tekur þrjár og hálfa klst með 20 mín stoppi á leiðinni.
Við komum á bryggjuna í Halong borg um miðjan dag og „tékkum okkur inn” í bátinn sem við munum sigla með. Eftir að við leggjum frá bryggju og siglum í áttina að flóanum verður framreiddur hádegisverður. Það er ævintýraleg upplifun að sigla um í Halong flóanum milli þessara óteljandi kalksteinseyja og það er ekki tilviljun að þetta svæði er á Heimsminjaskrá UNESCO. Í lok dags verður varpað ankerum fyrir nóttina og kvöldverður framreiddur.
Gisting, um borð í bátnum Pelican cruise, First Class, Deluxe Ocean View



Dagur 5: Halong flóinn (M/H/K)
Dagurinn hefst með Tai Chi æfingum á þilfarinu og að þeim loknum fáum við okkur morgunverð á meðan báturinn líður af stað í morgunhúminu. Við heimsækjum einn stærsta og fallegasta hellinn á svæðinu á ferð okkar um flóann. Seinni part dags munum við skella okkar á kayak (þeir sem það vilja) og upplifa kalksteinseyjarnar og þessa einstöku náttúrufegurð, frá nýju sjónarhorni. Eftir að við komum aftur í bátinn munum við njóta matargerðalistar heimamanna auk einstakra ávaxtaskreytingum. Hádegis – og kvöldmatur um borð í bátnum.
Gisting, um borð í bátnum Pelican cruise, First Class, Deluxe Ocean View



Dagur 6: Halong – Hanoi – Ho Chi Minh city (M/-/-)
Byrjum daginn á Tai Chi æfingum á þilfarinu áður en við förum í morgunmat. Þennan morgun munum við m.a. fara í bambusbát og skoða magnaðan helli þar sem oft er mikið sjónarspil ljóss og myrkurs. Á leiðinni í land verður borin fram léttur hádegisverður. Komið í land ca. kl 10:30 og verður þá lagt af stað til Hanoi. Í Hanoi verður farið beint út á flugvöllinn og flogið til Ho Chi Minh borgar sem heimamenn kalla Saigon.
Þegar við komum til Saigon tekur á móti okkur „nýr” enskumælandi fararstjóri og fylgir okkur á hótelið okkar sem er „niðri í bæ” en akstur þangað tekur ca 30 mín.
Gisting, Au Lac 2, First Class, Deluxe
Dagur 7: Ho Chi Minh city (Saigon) Can Tho(M/H/K)
KL 8:00 leggjum við af stað akandi til Can Tho og er gert ráð fyrir því að við verðum komin á Ninh Kieu bryggjuna um hádegi en þar förum við um borð í Bassac Cruise. Tekið verður á móti okkur með “welcome” drykk, fáum kynningu á skipinu og áhöfninni áður en við fáum herbergin okkar. Hádegisverður um borð í skipinu en síðan er bara að koma sér fyrir á ”dekkinu” og njóta siglingarinnar. Siglt verður um ár, síki og skurði með iðandi mannlífi bæði siglandi og á árbökkunum. Þetta er einstakt tækifæri til þess að upplifa mannlífð á svæðinu, í vinnu, á mörkuðum eða ……..
Við munum einnig fara í landi og heilsa upp á þorpsbúa. Eftir að við höfum notið sólsetursins á dekkinu mun áhöfnin bjóða upp á kvöldverð á meðan við dólum eftir Mang Thit ánni. Bassac mun síðan varpa ankerum rétt við Co Chien yfir nóttina.
Gisting, um borð í Bassac Cruise, First Class



Dagur 8: Can Tho - Cai Be (M/H/K)
Morgunverður er í boði frá kl 6:30 og Bassac siglir af stað. Við tökum saman okkar farangur og þegar líður á morguninn förum við yfir í minni bát sem flytur okkur til lands en þaðan verður ekið á hótel Mekong Riverside Boutique Resort and Spa sem er staðsett rétt við árbakkann. Við snæðum hádegisverð á veitingarstað hótelsins áður en við förum í göngu um nágrennið þar sem við m.a. heilsum upp á heimamenn í nálægu þorpi. Um kvöldið er hægt að komast enn betur inn í matarmenninguna með því að læra grunnatriði í matargerð heimamanna. Kokkurinn á veitingarstað hótelsins mun kenna okkur að útbúa nokkra rétti og við fáum einhverjar uppskriftir til þess að taka með okkur heim. Kvöldverðurinn síðan á veitingarstað hótelsins.
Gisting á Mekong Riverside Boutique Resort and Spa, garden view room
Dagur 9: Cai Be - Ho Chi Minh city (M/-/K)
Um morguninn er hægt að velja milli þess að slappa af á hótelinu eða fara í reiðhjólatúr um nágrennið og kynnast þannig fleiri hliðum Mekong Delta svæðisins. Ca kl 11 kveðjum við síðan hótelið og förum siglandi að bryggjunni í Cai Be en þaðan veður ekið til Ho Chi Minh.
Eftir að við komum á hótelið okkar verður afslöppun til kl 18 en þá hittum við mótorhjóla (vespu) fararstjórann okkar en þetta kvöld verður okkur ekið um á mótorhjólum (vespum) en það er mun auðveldari ferðamáti í “gamla bænum” en á bíl. Í fyrsta stoppi gefst okkur tækifæri á því að prófa Suður Vietnamska pönnukökur og vorrúllur en matreiðsla og matarvenjur eru ólíkar eftir landshlutum. Við ökum síðan m.a. það sem kallað er “svæði 4”og stoppum þar á vinsælum sjávarréttar matarmarkaði. Á götunum eru allskonar matarvagnar í löngum röðum kílómetrum saman og að sjálfsögðu verðum við að smakka einhverja af þessum gómsætu réttum. Eftir að hafa borðað nægju okkar ökum við að Bach Dang bryggjunni og förum í stutta göngu í rökkrinu.
Síðan höldum við áfram og stoppum á kaffihúsi með lifandi tónlist. Notalegt að taka því rólega og upplifa þetta rólega og afslappaða andrúmsloft sem er á þessum stöðum. Við endum kvöldið með því að fara á stað sem er með frábæru útsýni yfir borgina. Þar er gott að setjast niður fá sér drykk hlusta á tónlist og fylgjast með umferðinni flæða allt í kring um okkur. Kæmi mér ekki á óvart að þetta kvöld yrði ógleymanlegt fyrir einhvern.
Gisting, Au Lac Center Hotel
Dagur 10: Skoðunarferð um Cu Chi göngin og síðan um miðbæinn (M/-/-)
Brottför frá hótelinu kl 07:30 og ökum út úr borginni þar sem sveitin tekur við með hrísgrjónaökrum, þorpum og öllu því sem Suður Vietnömsk sveit hefur upp á að bjóða. Cu Chi göngin eru ótrúlegt net gangna sem Vietnamska andspyrnuhreifingin (Viet Cong) gróf og notaði bæði í stríðinu við Frakka og síðan Bandaríkjamenn. Við fáum fræðslu um það hvernig göngin voru byggð, hvernig þau voru notuð og hvernig var að “búa” í göngunum. Síðan fáum síðan tækifæri til þess að fara ofan í göngin og upplifa hvernig var að vera þar. Þessi heimsókn sögur úr stríðinu og upplifun heimamanna. Á Vesturlöndum fengum við reglulega fréttir af “Vietnamstríðinu”, sem Vietnamar kalla “Amríkustríðið”, en þær fréttir eru verulega frábrugðnar upplifun heimamanna á þessum tíma.
Eftir heimsóknina í Cu Chi göngin förum í skoðunarferð um borgina. Fyrsta stop er í “Sameiningar Höllinni” en þessi merkilega bygging sem áður var kölluð forseta höllin á sér merkilega sögu. Við munum m.a. fá að heyra hvað gerðist 30. Apríl 1975 þegar Saigon fell í hendur Norður Vietnama. Við heimsækjum síðan “Gamla Pósthúsið” og Notre Dame dómkirkjuna, tvær byggingar frá nýlendutímanum sem eiga sér merkilega sögu.
Seinasti viðkomustaður þennan morgun er Ben Thanh markaðurinn sem er staðsettur í hjarta borgarinnar, en þessi markaður er sá líflegasti á svæðinu. Það er sérstök upplifun að “olboga sig áfram” meðal heimamanna og skoða “endalausar” raðir af sölubásum með ávexti, te og allskonar þurkaðan góðgæti.
Gisting, Au Lac Center Hotel
Dagur 11: Hi Chi Minh – Siem Reap (M/-/-)
Ekið út á Tan Son Nhat flugvöllinn og þaðan er flogið til Siem Reap.
Við komuna þangað tekur á móti okkur ”local” fararstjóri og fylgir okkur á hótelið. Það sem eftir er dags á eigin vegum
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel



Dagur 12: Siem Reap - Angor Wat (M/L/-)
Eftir morgunverð setjum við stefnuna á þann stórkostlega og einstaka stað, Angkor Wat en akstur þangað tekur ca 30 mín. Við heimsækjum fyrst Ta Prohm hofið, en margir kannast við það úr einni af Tomb Raider myndunum. Hofið, sem var í byggingu frá miðri 12. öld og fram á 13., er að mestu ósnert eins og það fannst í frumskóginum á seinni hluta 19. aldar en í aldanna rás hefur náttúran tekið völdin og tré og risavaxnar trjárætur umlykja margar byggingar á magnaðan hátt. Þetta gerir Ta Prom eitt af minnisstæðasta og jafnframt mesta myndaða hofið af Angkor hofunum.
Við höldum áfram til hinnar fornu borgar Angkor Thom. Þetta var síðasta höfuðborg í hinu mikla Khmer Keisaradæmi en hún var undir stjórn keisarans Jayavarman VII. Átta metra hár veggur myndar ferhyrndan múr utan um borgina, en við förum inn um austur hliðið. Þegar inn er komið má sjá styttur af 54 guðum og risum í röð beggja vegna, sem bera uppi Hindua snákinn Naga.
Frá Angkor Thom höldum við til Bayon hofsins sem er nákvæmlega staðsett í miðri borginni. Þetta 12. aldar meistaraverk er einstaklega glæsilegt og er m.a. þekkt fyrir 54 turna með dulafullum andlitum sem eiga að tákna 54 héruð hins „Mikla Khmer Keisaradæmi“. Svokallaðar „verönd fílsins“ og „verönd Leper konungsins“eru hluti af sérkennum svæðisins.
Þá er komið að því að heimsækja hið eina sanna Angkor Wat. Hofið sem var byggt snemma á 12. öld, en þá var konungurinn Suryavarmann II við stjórnvölinn. Hofið var byggt sem fjalla hof sem átti að tákna fjallið Meru, heimkynni guðanna. Að innan eru veggir hofsins þaktir höggmyndum og skrauti úr Hindua goðafræðinni auk þess sem þar má finna myndrænar lýsingar á stríðum sem Suryavarman II fór í á meðan hann var við völd. Angkor Wat er jafnframt þekkt fyrir 2.000 Apsara dansara sem skreyta hofið í hinum ýmsu stærðum og gerðum. Í dag er Angkor Wat á þjóðfána Cambodíu sem tákn um Khmer þjóðarsálina.
Síðdegis förum við síðan á sýningu hjá „Phare, the Cambodian Circus“ . Þessi leikhópur var stofnaður 1994 í bænum Battambang af ungum Cambodíubúum sem höfðu verið í flóttamannabúðum þar sem þau lærðu þetta listform. Í sýningunum fjalla þau um sögu og menningu Khmeranna allt til okkar tíma og þar á meðal þjóðarmorðin hræðilegu sem kennd eru við Rauðu Khmerana. Í sýningunni er ýmsum listformum blandað saman eins og leiklist, dansi, söng, fimleikum, látbragði ofl.
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel
Dagur 13: Siem Reap - Tonlé Sap (M/L/-)
Eftir morgunverð verður farið í skemmtilega siglingu um Tonlé Sap vatnið en í siglingunni munum við m.a. kynnast lífinu á vatninu þar sem fjöldi manns býr allt árið. Tonlé Sap vatnið er stærsta ferskvatns stöðuvatn Suðaustur-Asíu en það þekur 250.000 hektara og er á heimsminjaskrá UNESCO. Eitt af sérstöðu stöðuvatnsins er að á regntímanum streymir mikið vatn frá Mekong flótinu inn í Tonlé Sap og snýst þá frárennsli vatnsins við og rennur til norðurs en öllu jöfnu rennur úr því til suðurs. Við förum um borð í einn af bátum heimamanna og heimsækjum þorpið Kampong Kleang sem byggt er á staurum í vatninu. Þar fylgjumst við með fiskimönnunum sem þar búa, og fjölskyldum þeirra. Það er sérstök upplifun að sigla um „götur“ þorpsins og sjá hvernig lífið gengur sinn vanagang við þessar aðstæður. Við fáum síðan að borða nestið okkar í einu af húsunum en við höfum með okkur nesti af hótelinu.
Á leiðinni til baka á hótelið verður komið við í rústum hofsins Roluos Group. Hofið var áður í bænum Hariharalaya sem var einn af fyrstu bæjum sem Angkor konungarnir byggðu. Bærinn byggðist upp á 8. og 9. öld en helstu hofin þar voru Bakong, Lolei og Preah Ko.
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel
Dagur 14: Siem Reap (M/-/-)
Dagurinn á eigin vegum.
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel
Dagur 15: Siem Reap (M/-/-)
Framan af er dagurinn á eigin vegum en um kvöldið er boðið upp á ferð um „miðbæinn“ á vespu. Í þessari ferð kynnumst við annari hlið á borginni en við sjáum öllu jöfnu auk þess sem miðbæjarferðin er líka heillandi matarupplifun. Með því að fara með vespu getum við ferðast um svæði sem bílar komast ekki um. Vespur hafa lengi verið algengasti ferðamátinn í Asíu og erum við því að upplifa stemninguna og næturlífið að hætti heimamanna. Við leggjum af stað frá hótelinu og eftir stuttan akstur erum við komin á næturmarkaðinn með öllum þeim ys og þys sem honum fylgir. Þar má sjá sölumenn og götueldhús um allt með endalaust framboð á framandi réttum, litskrúðugum ávöxtum - lyktin og hljóðin sem berast úr öllum áttum gera upplifunina engu líka.
Síðan stoppum við á hefðbundnum grillstað þar sem boðið er upp á mat og drykk. Þar verða sennilega eingöngu heimamenn að gæða sér á þessum frábæra mat sem eldaður er beint fyrir framan okkur svo við fáum stemninguna beint í æð.
Áfram höldum við inn í nóttina og í annan hluta bæjarins en næsti staður sem við heimsækjum er sérstakur veitingastaður sem er staðsettur, nánast falinn, á milli bars og næturklúbbs. Staðurinn býður upp á mat sem þykir einstakur að gæðum og útliti. Boðið verður upp á sýnishorn af því besta ásamt drykkjum og lifandi tónlist.
Við höldum áfram og næsti viðkomustaður er í gömlu fallegu kambódísku húsi, en þar kynnumst við hrísgrjónavíninu sem heimamenn eru svo stoltir af. Það verða sérvalin vín sem sem okkur verður boðið að smakka ásamt „local snakki“
Ferðin endar síðan á hótelinu eða í miðbæ Siem Reap fyrir þá sem langar að halda upplifuninni áfram inn í nóttina.
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel
Dagur 16: Siem Reap (M/-/-)
Dagurinn á eigin vegum.
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel
Dagur 17: Siem Reap (M/-/-)
Dagurinn á eigin vegum.
Gisting, Stueng Siem Reap Thmey Hotel
Dagur 18: Siem Reap - Keflavík (M/-/-)
Dagurinn á eigin vegum fram að brottför. Ekið verður út á flugvöll síðla dags og brottför frá Siem Reap til Bangkok kl. 20:45 en áætluð lending þar er kl. 21:55.
Dagur 19: Komið til Keflavíkur
Frá Bangkok verður síðan haldið kl. 00:50 og er áætluð lending í Kaupmannahöfn kl. 06:35. Frá Kaupmannahöfn er síðan flogið kl. 12:55 og áætluð lending í Keflavík kl. 15:10.



M=morgunverður, H=hádegisverður, K=kvöldverður
Verð, vegna Corona veirunnar eru þessi lönd enn lokuð og því hvorki hægt að fá verð í "landpakkann" né flug á þessari stundu.
Lágmarksfjöldi í ferðina er 10 manns.
Verð miðast við gengi ??.
Innifalið í verði:
* Millilandaflug, Keflavík – Hanoi
* Millilandaflug, Ho Chi Minh – Siem Reap
* Millilandaflug, Siem Reap – Keflavík
* Innanlandsflug, Hanoi – Ho Chi Minh
* Akstur til og frá flugvöllum.
* Gisting í 2 nætur með morgunverði á Chalcedony hótelinu í Hanoi.
* Gisting í 3 nætur með morgunverði á Au Lac 2 hótelinu í Ho Chi Minh.
* Gisting í 7 nætur með morgunverði á Stueng Siem Reap hótelinu í Siem Reap.
* Gisting í 1 nótt með morgunverði á Mekong Riverside Boutique Resort and Spa í Cai Be
* Sigling og gisting í 2 nætur ásamt morgunverði með Pelican á Halong Bay, sjá ferðalýsingu.
* Sigling og gisting í 1 nótt ásamt morgunverði með Bassac á Mekong svæðinu, sjá ferðalýsingu.
* Fullt fæði í 5 daga.
* Hálft fæði 5 daga.
* Skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu.
* Aðgangseyrir að þeim stöðum sem heimsóttir eru samkvæmt ferðalýsingu.
* Íslensk fararstjórn.
* Enskumælandi fararstjórn.
Ekki innifalið í verði:
* Forfalla- ferða- og slysatryggingar.
* Drykkir.
* Ferðir sem eru í boði á „frídögum“.
* Þjórfé fyrir leiðsögumenn og bílstjóra.
* Vegabréfsáritanir til Vietnam og Cambodiu.
* Öll persónuleg útgjöld sem ekki er getið um í ferðalýsingu.